þriðjudagur, ágúst 30, 2005

þessari

Ég gleymdi mér á þessari síðu í nánast einn og hálfan klukkutíma. En þá sá ég þessa mynd og vaknaði aftur til lífsins.

Ég mæli með þessari.
Þessari.
Og þessari.
Hvar eru allir busastrákarnir?

fimmtudagur, ágúst 25, 2005

en tois agrois

Skólinn er góður þó ég sakni svolítið Kösu og Kakólands. Ég sakna hinsvegar ekkert dönsku eða tölvufræði. Gríska er frábær fyrir utan örfáar aukaverkanir. Til dæmis er ég farin að lesa "vaff" sem "enn" og "enn" sem "e" í texta skrifuðum með latnesku stafrófi. Ætli þetta sé ekki tímabundið. Ef ekki þarf ég að flytja til Grikklands og það langar mig ekki. Ég held ég gæti ekki höndlað fleiri viðkvæma Miðjarðarhafs sjarmöra, eins og Gutti orðar það. Þar fengi ég heldur ekki að læra latínu. Þeir eru eitthvað pirraðir út í Ítalina greyin. Einhvers konar þjóðernismikilmennska þar á ferð.

þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Grjót í haga

Á morgun er fyrsti skóladagur samkvæmt stundarskrá. Ég veit hins vegar ekkert hvaða tímum ég er í á morgun af því að ég týndi stundarskránni. Satt best að segja er ég hugleysingi og hálfviti að eðlisfari. Hugleysingi að geta ekki barið ítalska menn frá Róm sjálf og hálfviti að ganga frá Austurvelli upp í Bóksölu Stúdenta og frá Bóksölu stúdenta að Lækjartorgi að algjörlega tilgangslausu. Þar að auki var ég þegar orðin of sein í vinnuna þegar ég lagði af stað í þetta ferðalag. Og var á hælum. Einhver hálfvitaleg fljótfærni býst ég við. Í vinnunni missti ég síðan sjóðandi vatn ofan á fótinn á mér, líka í hálfvitalegri fljótfærni. Hvaða heilviti sem er veit að maður nær ekki að vera búinn að loka klukkan hálf sjö með nýju stelpunni og því er ekki nauðsynlegt að þrífa kaffivélina hættulega hratt. Ég vann ekki í sinfóníuhappdrættinu. Þetta endaði samt allt vel í góðum mat heima hjá Kömmu með Gutta (og Kömmu líka). Eftir matinn horfðum við Kamma á Ég var einu sinni nörd eftir að minnsta kosti árshlé frá því ágæta uppistandi. Brandararnir aftur orðnir næstum jafn fyndnir og þeir voru fyrst. Jájá, á morgun verður betri dagur með blóm í haga.

föstudagur, ágúst 19, 2005

Næsta skólaár verður brillerí eða dauði. Og hananú.

miðvikudagur, ágúst 17, 2005


Ég skora á alla sem ég þekki að hlusta á Alexander Nevsky eftir Prokofiev, fá gæsahúð, finna kvikmyndina og horfa á hana með mér.
Sá sem verður fyrstur fær kúlu-súkk og seven-up.

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Ég braut blað.

Í dag skipti ég um ljósaperu í herberginu mínu. Ljósaperan hefur verið sprungin síðan fyrir jól. Því markar þessi atburður tímamót í lífi mínu. Nú ef til vill læt ég einhverntíman verða af einhverju.

mánudagur, ágúst 08, 2005

Hápunktur gærdagsins er að ég gerði þrjá loftbólulausa latté í röð. Foreldrar mínir flúðu borgina og skildu mig eftir með systur á gelgjuskeiðinu og bróður sem ætlar taka af mér bílinn. Quid rerum turpissimarum feci?

sögur af mat

Í allt sumar hef ég verið að reyna að hemja át mitt í þessu bakaríi. Það gengur satt best að segja ömurlega. Þetta sumar toppar meira að segja síðasta sumar. Þá fór ég til Krítar og neitaði að drekka útlenska mjólk og borða útlenskar mjólkurvörur. Eins og gefur að skilja þurfti ég að fylla upp í ansi stóra gloppu og það var einfaldlega gert með sætindum eins og "freshy doughnuts".
Dagurinn í dag byrjaði svo sem ágætlega. Ég fékk mér heilnæman og hollan mat matarpásunni og lét þar við sitja. Um stund.
Dagurinn endaði síðan í áti á góða súkkulaðinu sem er notað í heita súkkulaðið, vanillurjóma, venjulegum rjóma, söru bernhards þaktri rjóma, súkkulaðiköku, gelinu sem er notað ofan á kökur, konfekti og meiri rjóma.
Maður þjáist, en einhver verður að gera það.

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

svæðisfréttir

Ég hringdi niður á lögreglustöð áðan til þess að tilkynna týnt/stolið ökuskírteini. Ég er búin að fresta því að gera þetta í rúmlega viku vegna órökrétts kvíða. Það er eitthvað við þessa lögreglu. Áður en ég hringdi ímyndaði ég mér að nú yrði ég skömmuð. "Af hverju hringdirðu ekki fyrr? Veistu ekki hvað þetta er alvarlegt mál? Ertu fáviti? Helvítis hálfviti?"
Ég er nokkuð viss um að þessi hræðsla á sér rætur í umferðarskólanum. Fimm ára hélt ég því fram statt og stöðugt að það mætti alveg reiða fólk á bögglaberaranum. Lögregluþjónninn varð þá mjög reiður (að mér fannst) og sagði að það mætti bara alls ekki. Eftir það reiddi ég ekki einu sinni hvítu tuskukanínuna mína á bögglaberaranum.
En af símatalinu er það að segja að fyrst fékk ég símsvara sem sagði "Afsakið biðina, vinsamlegast bíðið." Því næst kom kona í símann gat ekki skilið að ég vildi nýtt ökuskírteini og tönnlaðist á því að skírteinið mitt væri ekki útrunnið fyrr en 2006. Í lokin kom hún því út úr sér að ég ætti að fara niður í Borgartún til að fá annað. Það var ekki erfiðara en það.