þriðjudagur, ágúst 02, 2005

svæðisfréttir

Ég hringdi niður á lögreglustöð áðan til þess að tilkynna týnt/stolið ökuskírteini. Ég er búin að fresta því að gera þetta í rúmlega viku vegna órökrétts kvíða. Það er eitthvað við þessa lögreglu. Áður en ég hringdi ímyndaði ég mér að nú yrði ég skömmuð. "Af hverju hringdirðu ekki fyrr? Veistu ekki hvað þetta er alvarlegt mál? Ertu fáviti? Helvítis hálfviti?"
Ég er nokkuð viss um að þessi hræðsla á sér rætur í umferðarskólanum. Fimm ára hélt ég því fram statt og stöðugt að það mætti alveg reiða fólk á bögglaberaranum. Lögregluþjónninn varð þá mjög reiður (að mér fannst) og sagði að það mætti bara alls ekki. Eftir það reiddi ég ekki einu sinni hvítu tuskukanínuna mína á bögglaberaranum.
En af símatalinu er það að segja að fyrst fékk ég símsvara sem sagði "Afsakið biðina, vinsamlegast bíðið." Því næst kom kona í símann gat ekki skilið að ég vildi nýtt ökuskírteini og tönnlaðist á því að skírteinið mitt væri ekki útrunnið fyrr en 2006. Í lokin kom hún því út úr sér að ég ætti að fara niður í Borgartún til að fá annað. Það var ekki erfiðara en það.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home