miðvikudagur, júlí 27, 2005

Þar sem það var frekar lítið að gera í vinnunni í dag ákvað ég að setja öll hnífapörin í "dip-it" til að hreinsa allt fasta ógeðið af þeim. Ég eyddi því meiri tíma en venjulega í uppvaskinu og það gaf mér meiri tíma til að hugsa. Það er mjög gott að syngja eða hugsa við uppvask. Uppvask er hugsunar- og söngvænt. Allavega.
Hér eru nokkrar minningar sem vekja heitar væmnistilfinnigar í maganum:

Leggjarbrjótur, sérstaklega að týnast í skóginum með Eddu.

Partur úr allegro kaflanum úr konsert fyrir tvær fiðlur eftir Bach. Ég hlustaði á hann að minnsta kosti fimmtíu sinnum í jólaprófunum og tók alltaf andköf ómeðvitað.

Nætursund í Kópavogslauginni.

Þegar Páll Óskar spilaði "Don't Stop Me Now" á söngballinu rétt eftir atriðið okkar.

Stelpnakvöldið síðasta kvöldið í Danmörku.

Þegar hálfur kórinn bauðst til að hjálpa mér með stærðfræðina eftir að ég féll.

Þegar ég átti afmæli í árshátíðarvikunni þar sem þemað var afmæli :)

Síðan skipulagði ég aðeins framtíðina. Ef ég giftist verður brúkaupstertan súkkulaðimúss með mangópassion fyllingu frá Café Kondtori Copenhagen.

Nú fer ég á Vestfirði. Bless.

mánudagur, júlí 18, 2005

Þegar unnið er við afgreiðslustörf talar maður oft við marga tugi manns á dag. Oftast er þetta bara smávegis kurteisishjal en stundum kemur fólk á óvart um leið og það opnar munninn. Flestir gleymast eftir smá stund, jafnvel þeir skemmtilegu, en nokkrir sitja þó eftir í minninu. Til dæmis lítill drengur sem kom í bakaríið í Spönginni. Það tók hann undarlega langan tíma að koma því út úr sér að hann ætlaði að kaupa hálft þriggjakornabrauð. Það var ekki fyrr en eftir á sem það rann fyrir mér að hann horfði allan tímann á sérbakað vínarbrauð með vanillukremi, sem kostar það sama og hálft þriggjakornabrauð.
Annað dæmi er gamall heyrnarlaus maður og lítill drengur sem komu í Kringluna. Gamli maðurinn, sem ég giska á að hafi verið afi drengsins, var mjög ókurteis og pirraður og æstist allur upp þegar ég skildi hann ekki. Þegar hann fór að kvarta undan verðinu varð ég óþarflega hrædd við hann og stífnaði öll upp. Litli drengurinn hins vegar, sem getur ekki hafa verið meira en tíu ára gamall, var alveg sallarólegur. Hann róaði afa sinn niður, talaði hægt og skýrt svo hægt var að lesa af vörum hans hvað hann var að segja og þegar búið var að borga leiddi hann manninn til sætis og kom svo aftur til að ná í bakkelsið. Ég hugsaði lengi eftir á um þessa tvo. Það snerti mig hvað drengurinn var þroskaður á sama tíma og ég var ráðalaus. Meira hugsaði ég þó um augnaráð gamla mannsins sem ég hafði áður tekið sem reiði en eftir á fannst mér það vera meira eins og ráðaleysi gagnvart heimi sem hann skildi ekki og heimi sem skildi ekki hann.

laugardagur, júlí 09, 2005

Útile(i)ga

Það er dásamlegt að sitja í rigningarúða með vinum sínum, horfa á Hvalfjörðinn, hlusta á Leonard Cohen og grilla pylsur á einnota grilli. Það er líka fyndið að byrja ferðina með því að bakka á bíl og það er virkilega ógeðslegt að borða Oste Pop.

sunnudagur, júlí 03, 2005

Allt í lagi, þá.
Haltu þínu striki og ég held mínu.
Svoleiðis mun það vera, um aldur og ævi.
Mannkynið mun ekki bæta sig, fá tíu í sögu,
af því að þú hélst þínu striki og ég mínu.