föstudagur, október 28, 2005

Veðrið hefur lítið sem ekkert farið í taugarnar á mér í dag.
Hins vegar fór það í taugarnar á mér þegar Þorsteinn J. sagði að það væri bullandi hríð.
Hver talar svona?

miðvikudagur, október 26, 2005

Ég er þreytt og var að uppgötva að ég man ekki eftir að hafa horft á heila bíómynd eftir að ég byrjaði í skólanum (nema To Kill a Mockingbird, sem var í skólanum og var mjög góð). Ef einhver gæti leiðrétt mig yrði ég mjög ánægð. Ekki það að ég sé ekki ánægð. Ég held bara að þetta sé ekki heilbrigt fyrir nútíma ungling. Eða er ég kannski fullorðin og ætti ekkert að vera að röfla þetta?


Please Please Me
Please Please Me


Which Beatles Album Are You?
brought to you by Quizilla


Já og ég klukka Gutta og Kömmu og Edduna mína og...og...tvær fyrstu manneskjurnar sem kommenta. Ég myndi klukka Arngunni en hún hefur verið klukkuð svo oft. Og þar hafiði það.

miðvikudagur, október 19, 2005

tilgangur lífsins

Súkkulaði er kvöl. Ég er komin með munnangur í gegnum kinnina.
Stafsetning er kvöl. Það er engin lýgi.
Latínupróf eru kvöl. En samt ekkert það alversta.
Sjostakóvitjs, Scriabin, Mozart og Mahler eru hinsvegar bestir.
Kannski Stravinsky líka. Og Prokofiev. Ég verð að koma mér úr þessu Rússlandstransi.
Harðsperrur eru kvöl. Já.
Ruslumdrasl er kvöl. Ég kenni um illa innréttuðu herbergi með stórum glugga.
Airwaves er kvöl. Þegar maður er ekki á staðnum
Sigur Rós eru æði. Bæði á stað og ekki.
Myrkrið er kvöl. Það þrengir að. Sérstaklega undir Gullinbrú.
Súkkulaði er gott. Hvað sem munnangri líður.
Þetta tilgangslausa blaður var í boði Njáluferðar.

föstudagur, október 14, 2005

klukkan

Ég var búin að gleyma því að ég var klukkuð og mundi það ekki fyrr en ég las bloggið hennar Ragnhildar.

1. Ég verð alltaf klökk þegar ég sé reyniber og reynitré. Sérstaklega þegar sólin skín í gegnum laufin. Þetta tré minnir mig svo mikið á barnæskuna á Kirkjuteignum og botnlangann í Safamýrinni sem ég gekk svo oft niður á leið í skólann.
2. Ég bít mig í handabakið þegar ég þarf virkilega að reyna á mig til að muna eitthvað. Það virkar sjaldnast og sem betur fer fara bitförin oftast eftir nokkra klukkutíma.
3. Þegar ég gleymi mér við að einbeita mér að píanóæfingum bít ég skinnið innan af neðri vörinni svo ég er oftast með sár einhversstaðar á henni innanverðri.
4. Ég þoli ekki gegnblautt morgukorn og borða það því eins hratt og ég get.
5. Ég lýg stundum til þess að stytta mál mitt. Ekki oft samt og lýgin skipti engu máli. Hún kemur bara í veg fyrir að ég þurfi að eyða tímanum í tilgangslausa útskýringu. Óþolandi ávani samt sem áður og hann getur komið aftan að manni.

kvaðan fæ jég kúlið?

Systir mín er á "Stál og hnífur" skeiðinu og syngur ekki annað. Pabbi minn er á enn einu ítölsku skeiðinu og nú hljóma ítalskar leikjaþáttakvensur um allt húsið. Það kæmi mér ekki á óvart ef hann gæti talað reiprennandi ítölsku ef hann reyndi. Mamma mín var að uppgötva að henni finnst "King of Queens" skemmtilegur þáttur.
Fjölskyldan mín er ekki kúl en ég elska hana samt.

mánudagur, október 03, 2005

segstu

Í gærkvöldi var ég send til að skila vídjóspólu sem systir mín hafði steingleymt að skila. Þar sem ég var orðin dauðþreytt eftir að hafa verið að læra undir grískupróf allan daginn, og átti slatta eftir, ákvað ég að kaupa mér PepsiMAX í leiðinni, svona til að halda mér vakandi. Ég kom síðan heim með PepsiMAX, byrjaði að læra og drakk það. PepsiMAXið virkaði, það má eiga það. En það virkaði bara ekki rétt. Eftir að ég var búin að drekka þennan svo sem ágæta drykk kom ég engu öðru í verk en að hreyfa annan fótinn óhugnalega hratt og búa til lag í hverju textinn samanstóð af "hemeteros, humeteros" með sænskum hreim. Eftir sirka korter af þessari heiladauðu iðju ákvað ég að koma mér bara í rúmið, þetta gengi ekki lengur. Það var samt ekkert betra. Ég kófsvitnaði, bylti mér í sífellu, hoppaði upp og fór á klósettið á nokkurra mínútna fresti.
Ég veit að boðskapurinn í þessari sögu er að drekka ekki PepsiMAX, en það lætur sér enginn segjast og síst af öllum ég.